Jón Stefán Brimar

Þessi síða er tileinkuð listamanninum
Jóni Stefáni Brimari Sigurjónssyni frá Dalvík (1928-1980).

Í tilefni af komandi 90 ára fæðingarafmæli Brimars árið 2018 hafa ættingjar hans hafið söfnun á ljósmyndum af og upplýsingum um listaverk hans. Markmiðið er að gefa út listaverkabók með úrvali verka hans og koma verkunum á framfæri með öðrum hætti, t.d. á vefnum.

Þessi vefsíða er sett upp til að gera fólki kleift að kynnast listsköpun Brimars, en hér má sjá hátt í 800 verk, þar af reyndar um 60 verk sem vitað er að voru til en eru enn ófundin, auk fjölda teikninga á mismunandi stigum.

Lumar þú á vitneskju um Brimar?

Hafir þú, lesandi góður, vitneskju um listaverk sem ekki sést hér eða sögur af listamanninum værum við þakklát ef þú vildir láta okkur vita. Hafðu samband við Ragnar í netfangi ragnthor@gmail.com eða Jón (jongeorgsson@hotmail.com). Eða þá í símum 663 7619 (Ragnar) eða 863 2186 (Jón).

Enn eru allmargar myndir ófundnar sem við vitum að voru til. Endilega kíkið á síðuna yfir ófundnar myndir og látið vita ef þið kannist við myndirnar þar.

Myndasöfnun

Í byrjun júní 2016 fórum við um Dalvík og nágrenni að taka ljósmyndir af málverkum Brimars. Síðan þá höfum við farið um víðan völl við að ljósmynda og skrá verk hans. Við höfum alls staðar fengið hlýjar móttökur sem við viljum sérstaklega þakka fyrir. Ekki síður hefur það hlýjað um hjartarætur að heyra hve margir áttu góðar minningar um Brimar og báru enn hlýjan hug til hans.

Myndasíða og blaðaviðtal
Hér er síða með nokkrum myndum af Brimari , þar á meðal stuttu myndskeiði með honum, og svo öðrum myndum tengdum verkefninu.
Um jólin 1980 hélt Brimar málverkasýningu í Ráðhúsi Dalvíkur. Af því tilefni var tekið við hann viðtal sem hér er endurprentað í PDF skjali. Það reyndist hans síðasta.

Umfjöllun í Landanum

Við erum orðnir frægir! RÚV þátturinn Landinn kom til Dalvíkur 20. febrúar þegar við Ragnar vorum að ljósmynda þar. Afraksturinn var sýndur í Landanum sunnudaginn 5. mars og frétt birt á vefsíðu RÚV.

Listaverkin

Hér eru öll fundin verk í belg og biðu en í nokkuð réttum stærðarhlutföllum. Smelltu á verk til að sjá stærri útgáfu ásamt upplýsingum um verkið.