Jón Stefán Brimar

Þessi síða er tileinkuð listamanninum Jóni Stefáni Brimari Sigurjónssyni frá Dalvík (1928-1980). Síðan er sett upp til að gera almenningi kleift að kynnast listsköpun Brimars, en hér má sjá hátt í 1000 verk, þar af reyndar um 60 verk sem vitað er að voru til en eru enn ófundin, auk fjölda teikninga á mismunandi stigum.

Myndasöfnun: Í byrjun júní 2016 hófst átak í að ljósmynda verk Brimars. Síðan þá höfum við systursynir hans (Ragnar og Jón) náð að ljósmynda eða fengið vitneskju um hátt í 1000 verk eftir hann.

Þessi árangur er ekki síst að þakka öllu því góða fólki sem hefur tekið svo vel á móti okkur. Við munum lengi búa að þeim hlýhug sem við höfum fundum fyrir og ekki síður hefur það hlýjað um hjartarætur að heyra hve allir eiga góðar minningar um Brimar og bera enn hlýjan hug til hans.

Þessi viðleitni okkar barst til eyrna RUV sem tók okkur tali í Landanum þegar við heimsóttum einn góðan Dalvíking sem á verk eftir Brimar. Innslagið má sjá á https://www.ruv.is/frett/vilja-kynna-verk-brimars-fyrir-althjod.

Myndasíða og blaðaviðtal: Hér er síða með nokkrum myndum af Brimari , þar á meðal stuttu myndskeiði með honum, og svo öðrum myndum tengdum verkefninu.
Um jólin 1980 hélt Brimar málverkasýningu í Ráðhúsi Dalvíkur. Af því tilefni var tekið við hann viðtal sem hér er endurprentað í PDF skjali. Það reyndist hans fyrsta og síðasta.


Eldra efni:

Á 90 ára afmælisdegi Brimars var síðan opnuð stór sýning á 340 verkum hans í Gamla skóla á Dalvík. Yfir 2.000 gestir sóttu sýninguna og fengu þar að kynnast verkum þessa merka listamanns.
Á sama degi var gefin út listaverkabók, Demantar Dalvíkur, með úrvali verka hans.

Þriðjudaginn 13. júní 2023 hefði Brimar orðið 95 ára.
Af því tilefni bauð Ragnar systursonur Brimars upp á afmælistertu á Dalbæ, dvalarheimili aldraðra á Dalvík, og bæjarskrifstofu Dalvíkurbyggðar. Á Dalbæ eru enn margir sem þekktu Brimar persónulega og vonandi er þessi skapandi sonur Dalvíkur ekki að gleymast öðrum. Það eru ekki margir staðir á Íslandi sem geta státað af slíkri arfleifð.

Lumar þú á vitneskju um Brimar?

Hafir þú, lesandi góður, vitneskju um listaverk sem ekki sést hér eða sögur af listamanninum værum við þakklát ef þú vildir láta okkur vita. Hafðu samband við Ragnar í netfangi ragnthor@gmail.com eða Jón (jongeorgsson@hotmail.com). Eða þá í símum 663 7619 (Ragnar) eða 863 2186 (Jón).

Enn eru allmargar myndir ófundnar sem við vitum að voru til. Endilega kíkið á síðuna yfir ófundnar myndir og látið vita ef þið kannist við myndirnar þar.

Listaverkin

Hér eru öll fundin verk í þeirri röð sem þau voru ljósmynduð en í nokkuð réttum stærðarhlutföllum. Smelltu á verk til að sjá stærri útgáfu ásamt upplýsingum um verkið. Smelltu á hnapp til að flokka verkin.